Upp­gjörið: Stjarnan - Njarð­vík 89-72 | Njarð­vík með annan fótinn í undanúr­slitum

Siggeir Ævarsson skrifar
Brittany Dinkins leikmaður Njarðvíkur.
Brittany Dinkins leikmaður Njarðvíkur. vísir/Anton

Njarðvíkingar eru komnir í lykilstöðu í einvígi þeirra og Stjörnunnar í 8-liða úrslitum Bónus-deildar kvenna eftir nokkuð öruggan sigur í Umhyggjuhöllinni í kvöld en skotsýning frá Njarðvíkingum í upphafi fjórða leikhluta gerði endanlega út um leikinn.

Bæði lið keyrðu leikinn af stað á fullu gasi og voru að skjóta vel fyrir utan en Njarðvíkingar leiddu þó með fimm stigum eftir fyrsta leikhluta.

Í öðrum leikhluta fór að fjara undan skotnýtingu heimakvenna fyrir utan þriggjastigalínuna og gestirnir keyrðu muninn upp í 15 stig en Stjarnan lagaði stöðuna aðeins til fyrir hálfleik, staðan 35-45. Brekka framundan en Stjörnukonur voru ekki á þeim buxunum að gefast upp frekar en fyrri daginn.

Hægt og bítandi tókst þeim að minnka muninn en Njarðvíkingar tóku margar skrítnar sóknir í röð sem enduðu með mjög erfiðum skotum sem geiguðu. Diljá Ögn Lárusdóttir keyrði svo upp völlinn í lok leikhlutans og skoraði mjög erfiða flautukörfu sem þýddi að aðeins munaði fjórum stigum fyrir fjórða leikhluta, stðaan 57-61.

Stjarnan minnkaði muninn svo í þrjú stig strax í upphafi fjórða en Njarðvík svaraði með fjórum þristum og munurinn allt í einu kominn upp í fimmtán stig á örskotsstundu. Þær gerðu í raun út um leikinn þar þó enn væru rúmar sex mínútur eftir.

Stjarnan náði aðeins að klóra í bakkann og laga stöðuna til en úrslitin voru ráðin eftir þetta þristaregn, lokatölur 89-72 og Njarðvík komið í 2-0 í einvíginu.

Þær geta því tryggt sér sæti í 4-liða úrslitum þegar liðin mætast næst í Njarðvík á miðvikudaginn.

Atvik leiksins

Þessi rúmlega tveggja mínútna kafli í upphafi fjórða leikhluta var ótrúlegur á að horfa. Þrír Njarðvíkingar settu fjóra þrista, komu muninn í 15 stig og gerðu út um leikinn löngu áður en tíminn var úti.

Stjörnur og skúrkar

Hjá Stjörnunni voru þær Diljá Ögn og Kolbrún María stigahæstar með 19 og 17 stig og þá bætti Diljá við níu stoðsendingum. Stjarnan hefði eflaust ekki kvartað yfir meira stigaframlagi frá erlendu leikmönnum sínum en Katarzyna Trzeciak var stigalaus.

Denia Davis-Stewart, Stixx, setti tólf stig og reif niður 16 fráköst en braut líka fimm sinnum af sér og gat því ekki klárað leikinn.

Hjá Njarðvík var Brittany Dinkins stigahæst með 25 stig, sex fráköst og sex stoðsendingar, þrátt fyrir að vera nánast á annarri löppinni. Paulina Hersler skoraði 19 og Emilie Hessedal 16 og var einnig með átta fráköst og sjö stoðsendingar.

Þá átti Lára Ösp Ásgeirsdóttir frábæra innkomu af bekknum og setti þrjá þrista í fjórum skotum, þar af tvo í áhlaupinu mikla.

Dómararnir

Dómarar kvöldsins voru þeir Kristinn Óskarsson, Bjarni Hlíðkvist Kristmarsson og Bjarni Rúnar Lárusson. Ég held að það sé ekkert upp á þá að klaga að þessu sinni.

Stemming og umgjörð

Umgjörðin í Umhyggjuhöllinni var til fyrirmyndar í kvöld en það verður að segjast alveg eins og er að mætingin í stúkuna var það ekki. Garðbæingar geta þó þakkað ungum aðdáendum sem mættu með trommur og voru með læti að stemmingin var alveg hreint ágæt. 

Hávaðinn í húsinu var í það minnsta ekki í neinum takti við fjölda áhorfenda en það var þó ekki síst stuðningsfólki Njarðvíkur að þakka og ungum leikmönnum Hattar sem mættu í hús til að styðja við bakið á Einar Árna, sínum gamla þjálfara.

Viðtöl



Ólafur Jónas: „Við héldum að við værum með ágætis plan á þær“

Ólafur Jónas Sigurðsson er þjálfari StjörnunnarVísir/Pawel Cieslikiewicz

Ólafur Jónas Sigurðsson, þjálfari Stjörnunnar, viðurkennir að verkefnið sem hans konur eru að fást við sé stórt en Njarðvíkingar virðast alltaf finna lausnir.

„Heldur betur. Bara kúdos á Njarðvík. Þær gerðu vel og settu stóru skotin. Þessir íslensku leikmenn sem fengu opin skot, þær negldu þessu. Það er bara lítið við því að gera. Við erum að reyna að stoppa þessa þrjá erlendu leikmenn sem skora samt 60 stig. Þetta er bara ógeðslega gott lið og erfitt að eiga við. Þetta var ekki eins og við ætluðum okkur í dag.“

Ólafur fékk drjúgt framlag frá ungum íslenskum leikmönnum og tekur margt jákvætt út úr leiknum líkt og þeim síðasta en þegar upp er staðið snýst þetta um að vinna.

„Auðvitað. Við erum bara að reyna að byggja upp hérna í Garðabænum. Þetta er bara byrjunin hvernig sem þetta fer. Við ætluðum samt sem áður að vinna leikinn þó að þetta sé allt saman jákvætt og allir að fá að spila og gaman gaman, þá ætluðum við að vinna þennan helvítis leik. Við héldum að við værum með ágætis plan á þær en þær eru bara klárar. Klárir leikmenn og þær fundu einhvern veginn alltaf lausnir. Við reyndum svæði, við reyndum maður, við reyndum bara allskonar. Þær einhvern veginn bara finna lausnir.“

Nú er bakið komið upp við vegginn en Óli er brattur.

„Við höfum engu að tapa. Förum bara inn, við þurfum bara að vera í svona smá, svo ég sletti aðeins, bara smá „fuck it mode“ og mæta klárar í þetta.“

Einar Árni: „Ég upplifði mig bara á heimavelli“

Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Njarðvíkur, einbeittur á hliðarlínunni Vísir/Pawel Cieslikiewicz

Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Njarðvíkur, talaði um það eftir síðasta leik að hans konur hefðu verið góðar í 25 mínútur en í kvöld voru þær í það minnsta frábærar í tvær mínútur.

„Ekki það, við erum bara að spila á móti feykigóðu liði og margar stelpur sem eru mjög ógnandi á sóknarhelming. Það væri skrítin nálgun að ætla það að þetta yrði bara einhver einstefna í 40 mínútur, bara alls ekki. Bara virðing á þetta Stjörnulið sem mér fannst spila á löngum köflum feykivel í dag. Voru frábærar í fyrsta leikhluta, voru að skjóta boltanum vel þar.“ 

„En ég er hrikalega ánægður með mitt lið, það kom kafli í þriðja þar sem við vorum að taka erfið skot. En eins og þú segir, byrjun á fjórða leikhluta, setjum náttúrulega risa skot og bara mikil liðsvinna. Við erum í dag með Pau sem hefur ekki getað æft á milli leikja vegna veikinda, bara ákvörðun í dag að hún myndi spila. Hrikalega ánægður með Em og Eygló hvað þær stigu upp í teignum. Eygló bara geggjuð af bekknum og Em náttúrulega bara á alla máta, hvort sem það var að skora, eða búa til eða frákasta og verjast. Lára, skjóta boltanum gríðarlega vel.“

„Þetta er bara það sem við þurfum, við þurfum framlag úr ýmsum áttum. Britt meiðir sig aðeins hérna í byrjun og var kannski ekki á sama hraða og oft áður. Þannig að ég er þeim mun ánægðari með sigurinn með þessa hluti fyrir framan mig á erfiðum útivelli á móti góðu liði. Ég verð eiginlega að gefa „props“ á fólkið okkar sem var geggjað. Ég upplifði mig bara á heimavelli.“

Brittany Dinkins fór snemma af velli og var greinilega ekki 100 prósent í hnénu en Einar segist ekki hafa stórar áhyggjur af henni.

„Ég hef ekki stórar áhyggjur af því úr því að hún gat spilað þennan leik. Minn maður á töskunni skoðaði hana og sagði bara grænt ljós og ekkert mál. Nú bara „recoverar“ hún og fær meðferð í framhaldi og verður vonandi bara fín fyrir miðvikudaginn. Við þurfum bara að vera skynsöm. Það er bara eins og er í úrslitakeppninni, það er allt undir á leikdag og þess á milli erum við bara að sleikja sárin og ná kröftum aftur og það er verkefnið fram á miðvikdag.“

Njarðvíkingar geta klárað einvígið á miðvikudaginn og Einar segir alveg ljóst að hann geri þá kröfu að liðið haldi áfram að bæta sig og klári dæmið.

„Það er mikið stolt í Icemar höllinni. Okkur hefur liðið ofboðslega vel þar og höfum alveg talað um að við ætlum ekki að gefa neitt eftir þar. Úrslitakeppnin náttúrulega, ekki of hátt, ekki of langt niður. Ég var hrikalega ánægður með stelpurnar hér í dag því við töluðum um að við þyrftum að vera betri í dag en í síðasta leik og mér fannst heildarmyndin betri í dag. Ég reikna með að ég geri kröfu á að byggja ofan á það. Verða aðeins betra á miðvikudaginn og sigla þessu heim.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira