Íslenski boltinn

Sjáðu markið um­deilda í Garðabæ: „Ekki var hann hræddur við Örvar?“

Sindri Sverrisson skrifar
Örvar Eggertsson var í aðalhlutverki í Garðabæ í gær en átti mark hans að standa?
Örvar Eggertsson var í aðalhlutverki í Garðabæ í gær en átti mark hans að standa? vísir/Diego

Menn voru ekki sammála um það í Stúkunni á Stöð 2 Sport hvort að mark Örvars Eggertssonar fyrir Stjörnuna gegn FH í gær, í Bestu deildinni, gæti virkilega hafa átt að standa. Umræðuna og mörkin úr leikjum gærkvöldsins má nú sjá á Vísi.

Stjarnan vann FH 2-1 í gær en það sem vakti mesta athygli í leiknum var fyrsta markið, sem Örvar skoraði. Fór boltinn allur yfir línuna? Hér að neðan má sjá umræðuna og getur hver dæmt fyrir sig. Neðar í greininni má sjá öll mörkin úr leiknum sem og úr leik Víkings og ÍBV þar sem Gylfi Þór Sigurðsson var rekinn af velli.

Í Stúkunni var mikil umræða um markið hans Örvars.

„Það er ómögulegt að sjá þetta frá þessum vinklum. Hann [Mathias Rosenorn, markvörður FH] stendur vissulega með fæturna fyrir innan línuna en það er þetta með hvort boltinn sé allur inni eða ekki. Það þarf að vera óyggjandi frá stöðu aðstoðardómarans úti við hornfánann að hann sjái þetta. Þetta verður umdeilt,“ sagði Ólafur Kristjánsson í Stúkunni og Gummi Ben tók undir að ekki væri hægt að dæma um þetta. Því var Bjarni Guðjónsson ekki sammála:

„Boltinn er ekki allur yfir línuna“

„Boltinn er ákveðið breiður þannig að ég ætla að vera ósammála ykkur. Ég held að það sé alveg hægt að skera úr um þetta. Boltinn er ekki allur yfir línuna. Hann [markvörðurin] þarf þá að vera vel fyrir innan línuna. Að línuvörðurinn taki það upp hjá sér að dæma þetta sem mark…“ sagði Bjarni en Gummi skaut þá inn í:

„Hann hlýtur samt að hafa séð boltann fyrir innan.“

„Boltinn er 22 sentímetrar í þvermál. Það er nú slatti,“ bætti Ólafur við.

„Svo er allt atið. Allur mannskapurinn þarna fyrir framan. Hvernig í veröldinni sér AD1 boltann fyrir innan?“ spurði Bjarni.

„Verðum við ekki samt að trúa að hann hafi séð boltann allan fyrir innan línuna? Ég trúi ekki öðru en að hann hafi séð hann allan fyrir innan og þess vegna tekið ákvörðun. Ekki var hann hræddur við Örvar?“ spurði Gummi áður en Ólafur sagði:

„Það er ómögulegt að sjá hvort að boltinn sé inni eða ekki.“

Öll mörkin úr leikjunum í Garðabæ og Víkinni má sjá hér að neðan.


Tengdar fréttir

Glóru­laus tækling Gylfa Þórs

Gylfi Þór Sigurðsson fékk beint rautt spjald fyrir glórulausa tæklingu í sínum fyrsta leik með Víking í Bestu deild karla í knattspyrnu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×