Ísland og Sviss eru í afar jafnri baráttu, ásamt Noregi, um að halda sér í A-deild Þjóðadeildarinnar sem jafnframt gæti skipt sköpum í baráttunni um sæti á HM 2027 í Brasilíu.
Liðin gerðu markalaust jafntefli í Sviss í febrúar og er það eina stig Sviss en Ísland er með tvö stig, Noregur fjögur og Frakkland níu, eftir þrjár umferðir af sex í riðlakeppninni.
Í aðdraganda leiksins í dag, sem hefst klukkan 16:45, fór samfélagsmiðlamaður svissneska liðsins á flakk um miðborg Reykjavíkur og spurði Íslendinga út í Sviss og leikinn. Myndbandið má sjá í Instagram-færslunni hér að neðan.
Fyrst áttu Íslendingarnir að giska á hvaða treyju væri verið að sýna þeim og sáu allir að um var að ræða svissnesku landsliðstreyjuna.
Tveir af fjórum viðmælendum virtust vita af leiknum í dag en ein hafði algjörlega engan áhuga. „Ég á selló. Ég fylgist ekki með fótbolta,“ sagði hún.
Íslendingarnir töluðu afar fallega um Sviss, sem verður einmitt gestgjafi EM kvenna í júlí, en bentu þó á að landið væri dýrt.
Aðspurð um úrslit spáðu tveir viðmælenda 2-1 sigri Íslands en ein vildi frekar senda skýr skilaboð til stelpnanna okkar:
„Ég hef ekki hugmynd. Ég vona bara að allir geri sitt besta og muni að þær eru fyrirmyndir fyrir margar, ungar stelpur. Ef þær gera það þá er ég ánægð.“