Íslenski boltinn

Fjögur pró­sent eru bara í fót­bolta og lang­flestar vilja VAR og gervi­gras

Sindri Sverrisson skrifar
Samantha Smith hjá Breiðabliki er sá leikmaður sem önnur lið í Bestu deildinni óttast hvað mest.
Samantha Smith hjá Breiðabliki er sá leikmaður sem önnur lið í Bestu deildinni óttast hvað mest. Vísir/Diego

ÍTF stóð fyrir skemmtilegri könnun á meðal leikmanna Bestu deildar kvenna í fótbolta í aðdraganda þess að ný leiktíð hefst næsta þriðjudag. Í ljós kom til að mynda að fjögur prósent leikmanna einbeita sér alfarið að fótboltanum og eru hvorki í annarri vinnu né námi.

Greint var frá niðurstöðum könnunarinnar í beinni útsendingu á Vísi í dag.

Rétt rúmur helmingur leikmanna, eða 55%, eru í námi með fótboltanum, 29% í fullu starfi og 12% í hlutastarfi með boltanum. Þessar niðurstöður eru því svipaðar og í sams konar könnun sem gerð var á meðal leikmanna í Bestu deild karla.

Mikill meirihluti leikmanna í Bestu deild kvenna, eða 74%, vilja VAR í íslenska boltann og svipaða sögu er að segja varðandi keppnisvellina því mun fleiri vilja gervigras (78%) en náttúrulegt gras (22%).

Leikmenn telja að Samantha Smith verði best í deildinni í sumar, nú þegar hún nær heillri leiktíð í deildinni eftir að hafa fyrst komið til Breiðabliks að láni frá FHL seinni hlutann í fyrra. Smith og Katie Cousins eru taldar erfiðustu leikmenn deildarinnar.

Sandra María Jessen var best á síðustu leiktíð og telja leikmenn að hún verði markadrottning í ár. Þá þykir Fram líklegast til að koma á óvart.

Kaplakriki er skemmtilegasti völlurinn en Kópavogsvöllur erfiðasti völlurinn.

Þá var markaskorarinn einstaki Margrét Lára Viðarsdóttir valin besti leikmaður í sögu efstu deildar hér á landi. Olga Færseth kom næst á eftir henni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×