Formúla 1

Pirraður Hamilton biðst ekki af­sökunar

Sindri Sverrisson skrifar
Lewis Hamilton varð að sætta sig við áttunda sæti í Miami.
Lewis Hamilton varð að sætta sig við áttunda sæti í Miami. Getty/Mario Renzi

Breski ökuþórinn Lewis Hamilton segist enga ástæðu til að biðjast afsökunar á sinni hegðun í Miami-kappakstrinum í gær. Hann sé einfaldlega enn með mikið keppnisskap.

Ferrari-mennirnir Hamilton og Charles LeClerc skiptust á að reyna að komast fram úr Kimi Antonelli hjá Mercedes en tókst það reyndar hvorugum og endaði LeClerc í 7. sæti og Hamilton í því áttunda.

Hamilton bað um að fá að fara fram úr LeClerc til að geta sótt að Antonelli en þegar hann fékk ekki svar strax sagði hann í talstöðina: „Takið endilega tepásu á meðan.“

Hamilton fékk svo að fara fram úr LeClerc en þegar honum tókst ekki að ógna Antonelli var hann beðinn um að hleypa LeClerc aftur fram úr. Það virtist hann ekki vilja gera strax.

Þegar LeClerce var sagt að hann fengi að fara fram úr í næsta hring sagði hann mönnum að spá ekki meira í þessu og virtist vilja ræða málið frekar eftir keppni. Hamilton hleypti honum þó að lokum fram úr og endaði sæti neðar.

„Ég er enn þá með keppnisskap [e. fire in my belly]. Ég fann það blossa upp þarna,“ sagði Hamilton eftir keppnina.

„Ég ætla ekki að biðjast afsökunar á því að vilja berjast. Ég biðst ekki afsökunar á því að hafa enn löngunina. Ég veit að það er þannig með alla í liðinu líka. Mér fannst upphaflega ákvörðunin ekki koma nógu hratt. Þegar það er þannig þá er maður bara: „áfram með smjörið“. En svo er það bara búið.

Það er allt í góðu á milli mín og liðsins og Charles. Mér finnst við geta gert betur. En bíllinn er ekki alveg þar sem hann þarf að vera. Á endanum erum við að berjast um sjöunda og áttunda,“ sagði Hamilton.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×