Upp­gjörið: Aftur­elding - Stjarnan 3-0 | Ný­liðarnir öflugir á heima­velli

Hinrik Wöhler skrifar
Breiðablik - Afturelding Besta Deild Karla Vor 2025
Breiðablik - Afturelding Besta Deild Karla Vor 2025 vísir/Diego

Afturelding sigraði Stjörnuna sannfærandi í Bestu-deild karla í Mosfellsbæ í kvöld. Mosfellingar léku við hvern sinn fingur og sigruðu Garðbæinga 3-0.

Mosfellingar voru ekki lengi að brjóta ísinn en strax á 9. mínútu átti Elmar Kári Cogic stórbrotinn sprett upp miðjan völlinn og fór framhjá hverjum leikmanni Stjörnunnar á fætur öðrum.

Elmar Kári lagði boltann á Hrannar Snæ Magnússon sem var á auðum sjó á vinstri vængnum. Sá síðarnefndi keyrði inn á vítateiginn og lagði boltann snyrtilega í fjærhornið af stuttu færi.

Leikurinn róaðist eftir fyrsta markið og bæði lið áttu ágætis sóknir og uppspil, þó án þess að skapa verulega hættu.

Gestirnir fengu þó nokkur föst leikatriði á vallarhelming Mosfellinga en lítið kom út úr spyrnum Garðbæinga. Varnarmúr heimamanna stóð þéttur fyrir.

Þegar leið á fyrri hálfleik bjargaði Axel Óskar Andrésson, miðvörður Aftureldingar, á marklínu eftir darraðardans í vítateig Mosfellinga en skot Benedikts Warén var á leið í bláhornið en miðvörðurinn kom Aftureldingu til bjargar.

Emil Atlason, framherji Stjörnunnar, náði að koma boltanum í netið undir lok fyrri hálfleiks en var dæmdur brotlegur eftir að hafa stjakað við Gunnari Bergmanni Sigmarssyni skömmu áður.

Mosfellingar leiddu með einu marki gegn engu þegar leikmenn gengu til búningsherbergja.

Heimamenn voru hvergi nærri hættir og bættu við marki á 56. mínútu. Georg Bjarnason skoraði sitt fyrsta mark í efstu deild eftir að boltinn datt til hans eftir klafs í vítateig Stjörnunnar.

Axel Óskar Andrésson náði að renna boltanum þvert fyrir markið og þar náði Georg að renna boltanum í netið af stuttu færi.

Afturelding gerði út um leikinn með þriðja markinu á 64. mínútu eftir góða skyndisókn. Hrannar Snær Magnússon þaut upp vintri kantinn og gaf lága sendingu inn í vítateiginn. Þar var Aron Jóhannsson mættur á siglingunni og smellhitti boltann í fjærhornið.

Stjarnan pressaði ofar sem eftir lifði leiks en náði ekki að brjóta niður vörn Mosfellinga. Leikurinn fjaraði út og gátu heimamenn fagnað verðskulduðum sigri í leikslok.

Atvik leiksins

Stjörnumenn eygðu von framan af og allt þar til að Mosfellingar náðu þriðja markinu. Aron Jóhannsson gerði útslagið með þriðja marki Aftureldingar á 64. mínútu eftir snarpa skyndisókn og gátu heimamenn andað léttar síðustu 30 mínútur leiksins eða svo.

Stjörnur og skúrkar

Elmar Kári Cogic á heiðurinn af fyrsta marki Aftureldingar en hann lék sér að leikmönnum Stjörnunnar áður en hann lagði boltann út á vænginn til Hrannars Snæs Magnússonar. Elmar Kári og Hrannar Snær voru sífellt ógnandi og hefðu vel getað bætt við fleiri mörkum í kvöld.

Þeir tveir voru fremstir í flokki hjá Mosfellingum en í raun væri hægt að telja upp flesta leikmenn Aftureldingar í kvöld, allt frá aftasta til fremsta manns.

Hjá Stjörnunni var hins vegar fátt jákvætt að finna, hvorki í vörn né sókn. Mosfellingar áttu auðvelt með að sækja hratt á vörn gestanna og skapa sér álitlegar stöður. Lítið kom út úr föstum leikatriðum, uppspili og sóknarleik Garðbæinga almennt.

Dómarar

Twana Khalid Ahmed dæmdi leik kvöldsins í Mosfellsbæ og hélt vel utan um leikinn, þó að vafaatriði hafi komið upp undir lok fyrri hálfleiks.

Gestirnir skoruðu mark sem var dæmt af, og voru Stjörnumenn ekki parsáttir með að það stæði ekki. Emil Atlason stjakaði við Gunnar Bergmann Sigmarsson í aðdraganda marksins. Snertingin var ekki ýkja mikil og má setja spurningarmerki við hvort markið hefði átt að standa eða ekki.

Stemning og umgjörð

Mosfellingar fara ótroðnar slóðir þegar kemur að umgjörð á leikjum og buðu meðal annars upp á húðflúr á meðan leik stóð. Nokkrir gripu gæsina og fengu sér húðflúr með myndmerki Aftureldingar.

Stuðningsmenn beggja liða höfðu þó hægt um sig í stúkunni. Garðbæingar stóðu frammi fyrir lúxusvandamáli og þurftu að velja milli fótbolta og körfu, en Stjarnan lék oddaleik gegn Grindavík í úrslitakeppni í körfubolta.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira