Tónleikaplatan Skin and Bones með Foo Fighters er komin út. Platan inniheldur vinsæl lög á borð við Walking After You, My Hero, Times Like These og Everlong í órafmögnuðum útgáfum. Tónleikarnir voru teknir upp í Los Angeles Pantages Theater í Kaliforníu í ágúst síðastliðnum.
Hljómsveitin var talsvert stærri á tónleikunum en gengur og gerist. Auk Foo Figters-liðanna Dave Grohl, Taylor Hawkins, Nate Mendel og Chris Shiflett komu fram Petra Haden (fiðla), Rami Jaffee (hljómborð), Drew Hester (ásláttur) og fyrrum Foo Fighters-gítarleikarinn Pat Smear, sem yfirgaf sveitina árið 1997.
Tónleikarnir koma einnig út á DVD-mynddiski, sem inniheldur fleiri lög og annað aukaefni.
Foo Fighters hefur haldið tvenna tónleika hér á landi við mjög góðar undirtektir. Þeir síðustu voru í Egilshöll sumarið 2005 þegar þeir tróðu upp með vinum sínum í Queens of the Stone Age.