Danska þjónustufyrirtækið ISS hefur keypt þýska fyrirtækið Debeos af þýsku bílaframleiðendunum DaimlerChrysler. Kaupverð er ekki gefið upp en danska dagblaðið Börsen segir þetta með stærstu fyrirtækjakaupum ISS, sem hyggur á frekari útrás í Þýskalandi í kjölfarið.
Börsen segir 548 manns vinna hjá Debeos en tekjur fyrirtækisins námu 586 milljónum danskra króna á síðasta ári. Það jafngildir rúmum 7,1 milljarði íslenskra króna.
Þá hefur Börsen eftir Jørgen Lindegaard, forstjóra ISS, að horft sé til þess að með kaupunum muni fyrirtækið geta boðið upp á ýmis konar þjónustu í Þýskalandi og muni rúm 30 prósent af tekjum fyrirtækisins koma þaðan.
ISS er meðal annars með starfsemi hér á landi undir heitinu ISS Iceland.