Húsgögn, tölvur og annar skrifstofubúnaður Landsbankans í Amsterdam verður settur á uppboð í næstu viku. Fer upphæðin sem fæst á uppboðinu upp í skuldir bankans vegna Icesave-reikninganna í Hollandi.
Samkvæmt fréttum um málið í hollenskum fjölmiðlum er m.a. um að ræða 25 skrifborð og stóla, Dell-tölvur, borðsíma, sjónvörp og eldhúsáhöld.
Ekki er búist við að stórar fjárhæðir fáist fyrir þessar eignir á uppboðinu en það fylgir sögunni að flestir af þessum munum séu nýir af nálinni og af töluverðum gæðum.
Hægt er að skoða eignirnar á þriðjudaginn kemur og síðan fer uppboðið fram tveimur dögum seinna.