Hnefaleikakappinn David Haye þarf ekki að flýja land því hann vann auðveldan sigur á Audley Harrison í þungavigtarbardaga þeirra í gær. Haye sagðist ætla að flytja frá Englandi ef hann myndi tapa. Hann myndi neyðast til þess því skömmin væri of mikil að tapa fyrir Harrison.
Haye svitnaði varla í bardaganum sem lauk í þriðju lotu. Yfirburðir Haye voru algjörir.
"Ég sagði öllum að ég myndi rota hann í þriðju lotu og ég stóð við það," sagði Haye kokhraustur eftir bardagann.
"Ég er það góður að stýra bardögum að ég ræð því hvenær andstæðingurinn fer niður. Ég hefði getað klárað bardagann fyrr en vildi standa við að klára dæmið í þriðju lotu."