Tepco, sem rekur kjarnorkuverið í Fukushima í Japan, á í verulegum vandræðum með að finna geymslustað fyrir tugi þúsunda tonna af geislavirku vatni. Vatnið var notað til að kæla kjarnaofna kjarnorkuversins sem varð fyrir verulegum skemmdum í jarðskjálfta í mars 2011.
Um 200.000 tonn af geislavirku vatni, sem jafngilda vatnsmagni ríflega 50 sundlauga í Ólympíustærð, eru nú geymd í risastórum geymum sem settir hafa verið upp í kringum kjarnorkuverið. Tepco er hins vegar að verða uppiskroppa með landrými þrátt fyrir að hafa þegar hoggið niður fjölda trjáa í nágrenni kjarnorkuversins.
Fyrirtækið gerir ráð fyrir að þurfa geymslupláss fyrir ríflega 400.000 tonn til viðbótar á næstu þremur árum, þar sem grunnvatn lekur reglulega inn í verið.
Yfirvöld í Japan hafa miklar áhyggjur af mögulegum afleiðingum þess ef mengað vatnið sleppur út í náttúruna en vísindamenn hafa varað við alvarlegum umhverfisskaða og mögulegum áhrifum á heilsu manna.
- mþl
