Novak Djokovic, efsti maður heimslistans, er kominn áfram i 16-manna úrslit Wimbledon-mótsins í tennis eftir öruggan sigur á Frakkanum Jeremy Chardy.
Djokovic vann með þremur settum gegn engu, 6-3, 6-2 og 6-2, og hafði mikla yfirburði. Hann hefur ekki enn tapað setti á mótinu, ekki frekar en Skotinn Andy Murray.
Djokovic leikur gegn Þjóðverjanum Tommy Haas í 16-manna úrslitunum.
Ástralinn stórefnilegi Bernard Tomic er einnig kominn áfram eftir sigur á Richard Gasquet, sem er í níunda sæti heimslistans, í fjórum settum.
Í kvennaflokki bar helst að Petra Kvitova frá Tékklandi og heimakonan Laura Robson komust báðar áfram.

