Malasíska flugfélagið Malaysia Airlines hyggst segja upp sex þúsund starfsmönnum sínum. Ákvörðunin er liður í aðgerðum til að bregðast við gríðarlega erfiðum rekstaraðstæðum þar sem tvær farþegavélar flugfélagsins hafa farist það sem af er ári.
Sagt er frá fyrirhuguðum breytingum á rekstri flugfélagsins í frétt BBC, en þær voru kynntar á fréttamannafundi í morgun.
Uppsagnirnar þýða að starfsmönnum félagsins mun fækka um 30 prósent. Malaysia Airlines verður nú að fullu í eigu malasíska ríkisins, en ríkið átti áður 69 prósenta hlut. Nýr framkvæmdastjóri hefur verið ráðinn til að halda utan um rekstur félagsins.
Hvarf vélarinnar MH370 í mars og árásin á MH17 í júlí hafa leikið félagið grátt, en búist er við að sérstök aðgerðaáætlun til að bjarga flugfélaginu komi til með að kosta tæpa tvo milljarða Bandaríkjadala.
Malaysia Airlines segir upp þriðjungi starfsfólks
