Dominiqua Belanyi vann í dag öruggan sigur í áhaldafimleikum á Smáþjóðaleikunum í Reykjavík í dag. Þá vann kvennalið Íslands sömuleiðis góðan sigur í heildarkeppninni.
Dominiqua fékk samtals 49.900 stig og var meðal efstu keppenda í öllum greinum - stökki, tvíslá, jafnvægisslá og gólfæfingum.
Önnur varð Thelma Rut Hermannsdóttir með 48.400 stig og þriðja Lisa Pastoret frá Lúxemberg en hún fékk 46.100 stig.
Í liðakeppninni fékk Ísland langflest stig, eða 149.050 talsins. Malta varð í öðru sæti með 137.550 stig og Lúxemborg þriðja skammt undan.
Ísland vann einnig sigur í liðakeppninni á leikunum fyrir tveimur árum en Dominiqua varð þá einnig meistari í fjölþraut.
Valgarð Reinhardsson fékk brons í einstaklingskeppninni í karlaflokki með 79.600 stig. Kýpverjar voru í efstu tveimur sætunum og Kýpur vann þægilegan sigur í liðakeppninni. Ísland varð í öðru sæti þar.
Á morgun er keppt í úrslitum á einstökum áhöldum. Þangað komast átta bestu keppendur dagsins en þó ekki meira en tveir frá hverri þjóð.
