Fyrstu eintökunum af Model 3-bifreið rafbílaframleiðandans Tesla verður rúllað út úr verksmiðjunni á föstudag, að sögn Elons Musk, forstjóra fyrirtækisins. Model 3 á að vera ódýrari kostur sem á að keppa við vinsæla rafknúna fólksbíla.
Musk skrifaði á Twitter að eigendur fyrstu þrjátíu bílanna fengju þá í hendur fyrir mánaðamótin eftir að bíllinn stóðst úttekt eftirlitsaðila á undan áætlun.
Til stendur að framleiða 20.000 Model 3-bifreiða á mánuði í framtíðinni. Musk segir að þeir sem panti núna fái bíl ekki í hendur fyrr en seint á næsta ári.
Model 3 á að gerbylta framleiðslu Tesla. Fram að þessu hefur það aðeins framleitt 85.000 bíla á ári en með nýju tegundinni er ætlunin að framleiða hálfa milljón á ári samkvæmt frétt Washington Post.
