Óskar Einarsson, formaður Flugvirkjafélags Íslands, segir fyrsta fund hjá ríkissáttasemjara ekki hafa breytt miklu. Þar hafi aðilar helst verið að kynna sín sjónarmið og fara yfir málið í rólegheitum. Hann segir hugmyndir flugvirkja og Samtaka atvinnulífsins um launahækkanir vera mjög mismunandi.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, segir línu samtakanna alveg skýra. Á fundi samtaka atvinnulífsins á Akureyri í fyrradag talaði hann um að krafa væri uppi í þjóðfélaginu um ósjálfbærar launahækkanir í landinu. „Stundum er mikið svigrúm fyrir launahækkanir, stundum er lítið svigrúm fyrir launahækkanir. Það er alveg ljóst að það er ekkert svigrúm fyrir launahækkanir eins og staðan er í dag,“ segir Halldór Benjamín á fundinum. „Við verðum að verja þá kaupmáttaraukningu sem launafólk hefur fengið á síðustu árum, sem er á milli 20 og 30 prósent.“
Einnig sagði Halldór Benjamín að útflutningsfyrirtækin yrðu að vera leiðandi í verðmætasköpun og því hversu mikið svigrúm væri til launahækkana. Opinberir starfsmenn og kjararáð gætu ekki með nokkru móti verið leiðandi í launahækkunum í þessu landi.
„Það var lítið sem gerðist á þessum fundi og ég mun boða aðila til fundar aftur innan tveggja vikna nema eitthvað sérstakt gerist í millitíðinni,“ segir Bryndís Hlöðversdóttir ríkissáttasemjari.