Fjárfestingafyrirtækið Colony Capital hefur fjárfest í framleiðslufyrirtæki Weinstein-bræðra sem rambar á barmi gjaldþrots. Fjölmargar þekktar leikkonur hafa stigið fram og greint frá kynferðislegri áreitni af hálfu Harwey Weinstein, annars stofnanda fyrirtækisins.
Í frétt BBC segir að líklegt sé talið að Colony Capital muni yfirtaka félag bræðranna. Colony Capital hefur á undanförnum árum starfað náið með Weinstein-bræðrunum eftir að hafa yfirtekið framleiðslufyrirtækið Miramax árið 2010, sem upphaflega var stofnað af Weinstein-bræðrunum.
Í tilkynningu frá Thomas J. Barrack, stofnanda og forstjóra Colony Capital, segir að markmiðið með fjárfestingunni sé að endurreisa fyrirtæki þeirra bræðra og koma því aftur á þann stall sem það var áður en ljóstrað var upp um kynferðislega áreitni af hálfu Harvey Weinstein.
Weinstein hefur um áratuga skeið verið einn valdamesti maðurinn í Hollywood og framleitt hverja stórmyndina á fætur annarri, meðal annars Django Unchained, The King‘s Speech og The Imitation Game. Þá hafa myndir sem hann hefur framleitt verið tilnefndar til um 300 Óskarsverðlauna.
Ásakanirnar á hendur Weinstein ná yfir þrjá áratugi og eftir að umfjöllun New York Times birtist hafa fleiri leikkonur og aðrar konur sem starfað hafa í Hollywood stigið fram og greint frá áreitni og ofbeldi Weinstein. Þar á meðal eru heimsfrægar leikkonur á borð við Angelinu Jolie og Gwyneth Paltrow
