Vörur fyrirtækisins, sem eru seldar undir vörumerkinu Siggi’s skyr, eru fáanlegar í um 25 þúsund verslunum í öllum ríkjum Bandaríkjanna og er það með um tveggja prósenta markaðshlutdeild af jógúrtsölu í Bandaríkjunum.
Samkvæmt heimildarmönnum Fréttablaðsins, sem þekkja vel til söluferlisins sem er leitt af fjárfestingabankanum JP Morgan, hafa staðið yfir viðræður við að minnsta kosti tvö umsvifamikil fyrirtæki í mjólkuriðnaðinum vestanhafs. Talið er að velta The Icelandic Milk and Skyr Corporation aukist um liðlega 50 prósent á næsta ári og verði þá samtals um 200 milljónir dala, jafnvirði 21 milljarðs króna.
Fram hefur komið að fyrirtækið sé að 75 prósent hluta í eigu Sigurðar og ættingja hans, vina og annarra sem þeim tengjast. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins nemur eignarhlutur Sigurðar um 25 prósentum en aðrir Íslendingar sem eiga umtalsverðan hlut í fyrirtækinu eru meðal annars feðgarnir Ingimundur Sveinsson arkitekt og Sveinn Ingimundarson. Þá á svissneski mjólkurframleiðandinn Emni Group um fjórðungshlut sem félagið eignaðist í árslok 2013.

Ekki náðist í Sigurð við vinnslu fréttarinnar þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.