Tveir íslenskir MMA-bardagakappar leggja land undir fót í vikunni til þess berjast á bardagakvöldum í Bretlandi um næstu helgi. Magnús „Loki“ Ingvarsson mun þá berjast í sínum fyrsta atvinnumannabardaga.
Hinn 24 ára gamli Magnús hefur gert það gott sem áhugamaður. Unnið sjö bardaga, tapað þremur og gert eitt jafntefli. Hann varð einnig þriðji á EM áhugamanna í MMA árið 2016.
Hann mun mæta Bretanum David McGee í léttvigtarbardaga í Doncaster. Sá hefur unnið einn bardaga og tapað einum.
Þorgrímur Þórarinsson er einnig á leið í búrið í Doncaster en hann mun fá titilbardaga í áhugamannaflokki hjá Caged Steel.
Þorgrímur er 25 ára gamall og hefur stundað MMA í þrjú ár en hann er einnig Muay Thai bardagamaður. Síðasta viðureign hans var í Muay Thai í Tælandi þar sem hann rotaði andstæðing sinn í annarri lotu.
Sýnt verður beint frá bardögunum á Facebook-síðu Reykjavík MMA.
