Öll eru þessi nýju listaverk innblásin af verkum Sigurjóns og sögu og staðháttum á Laugarnesinu og eru þó afar fjölbreytt og ólík að efni og gerð. Eða eins og stendur í hugleiðingum sýningarstjóra: „Hér er samvinnan og hið óljósa samtal í forgrunni sem teygir anga sína bæði aftur í tímann og fram á við.“
Á bak við sýninguna standa alls ellefu listamenn, að Sigurjóni meðtöldum. Guðríður Skugga er ein þeirra. Hún stendur uppi í stiga á neðri hæðinni með hallamál að finna rétta punktinn fyrir aðra af tveimur ljósmyndum sem hún hefur endurgert og smíðað trausta og eftirtektarverða málmramma utan um.

Ragnheiður Guðmundsdóttir er að útskrifast úr Listaháskólanum í vor eftir tveggja ára nám og er að setja upp textílverk á efri hæðinni. „Þetta er efni sem ég hef verið að vinna með. Það vísar í skinn eða húð og ég tengi það holdsveikraspítalanum sem hér stóð. Ég keypti efnið, gataði það og tætti svolítið og bar svo á það efni sem gerir það stíft. Set svo lag ofan á lag þannig að þrívídd skapist.“
Sýningin „við mið“ er samstarfsverkefni Listasafns Íslands, Listaháskóla Íslands og listfræði við Háskóla Íslands og það eru nemar úr HÍ sem annast sýningarstjórn.