Tollar á bandarískar vörur að andvirði sextán milljarða dollara sem fluttar eru til Kína taka gildi síðar í þessum mánuði. Viðskiptaráðuneyti Kína tilkynnti þetta í dag en tollarnir eru svar við viðskiptahöftum Donalds Trump Bandaríkjaforseta.
Unnur umferð verndartolla Trump eiga að taka gildi 23. ágúst. Kínversku tollarnir taka gildi á sama tíma, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Þeir beinast meðal annars að kolum, olíu, efnum og sumum lækningatækjum.
Áður hafði Trump lagt 25% toll á kínverskar vörur að andvirði 34 milljarða dollara. Hann hefur jafnframt hótað leggja frekari tolla á allt að 200 milljarða dollara af kínverskum vörum. Kínverjar hafa á móti hótað tollum á 60 milljarða dollara af bandarískum vörum til viðbótar.
