Leitinni að þeim sem var saknað eftir hrun Morandi brúarinnar í Genúa á Ítalíu lauk í nótt. Þrjú lík fundust í braki brúarinnar og tala látinna er nú komin upp í 43.
Leitaraðgerðir hafa staðið yfir síðan brúin hrundi á þriðjudag. Níu liggja á spítala eftir hrunið og þar af eru fjórir taldir vera enn í lífshættu.
Stefano Zanut hjá slökkviliði Genúa greindi frá því að slökkviliðið myndi gera allt sem í sínu valdi stæði til þess að tryggja að svæðið yrði öruggt sem allra fyrst og til þess að hægt væri að komast að niðurstöðu um ástæðu þess að brúin hrundi.
„Þrátt fyrir að leitinni hafi formlega verið hætt og allir sem saknað var séu fundnir munum við halda áfram störfum til þess að ganga úr skugga um að enginn verði eftir undir brakinu,“ sagði Zanut við ítölsku fréttaveituna Sky TG24.
