Íslenska handboltalandsliðið mætir því japanska á HM í handbolta í dag og það má ekki búast við sama ruddaskap og í mörgum brotum Bareinanna í síðasta leik.
Þegar háttvísitölfræði Alþjóðahandknattleikssambandsins er skoðuð frá fyrstu þremur umferðum riðlakeppninnar kemur í ljós að Japan er með prúðasta liðið í keppninni.
Strákarnir hans Dags Sigurðssonar hafa aðeins fengið 21 refsistig eða 7,0 að meðaltali í leik.
Japönsku leikmennirnir hafa bara átta sinnum verið reknir útaf í tvær mínútur í fyrstu þremur leikjunum og liðið hefur auk þess aðeins fengið fimm gul spjöld.
Bareinar eru aftur á móti þriðja grófasta lið keppninnar á eftir Argentínu og Rússlandi. Barein er eina liðið í keppninni sem hefur fengið tvö rauð spjöld en þau komu bæði í leiknum á móti Íslandi.
Íslenska landsliðið er í 14. sæti á þessum lista með 36 refsistig eða 12,0 að meðaltali í leik. Ísland hefur fengið fimmtán brottrekstra en ekkert rautt sjald.
Af hinum Íslendingaliðunum má nefna að Austurríki (undir stjórn Patreks Jóhannessonar) er í 15. sæti og Svíþjóð (undir stjórn Kristjáns Andréssonar) er í 10. sæti.
Prúðustu liðin á HM
(Eftir þrjá fyrstu leikina)
1. Japan 21 refsistig (7,0 í leik)
2. Króatía 22 refsistig (7,3)
3. Spánn 23 refsistig (7,7)
3. Makedónía 23 refsistig (7,7)
5. Noregur 24 refsistig (7,7)
14. Ísland 36 refsistig (12,0)
Grófustu liðin á HM
(Eftir þrjá fyrstu leikina)
24. Argentína 53 refsistig (17,7)
23. Rússland 45 refsistig (15,0)
22. Barein 43 refsistig (14,3)
21. Serbía 42 refsistig (14,0)
20. Katar 41 refsistig (13,7)
