Sjá nánar: Kennir múslimum um árásina í Nýja-Sjálandi
Ungur mótmælandi skellti eggi í höfuðið á þingmanninum á meðan Anning ræddi við fréttamann. Hann brást ókvæða við og lamdi hann samstundis og ítrekað í andlitið. Samkvæmt heimildum Guardian er drengurinn 17 ára.

Í gær sagði Anning að ástæðu hryðjuverkaárásarinnar í Christchurch í Nýja-Sjálandi, þar sem 49 voru myrtir, megi rekja til „innflytjendastefnu sem gerði öfgamúslimum kleift að flytja til Nýja-Sjálands til að byrja með.“
Í yfirlýsingu sinni sagði hann þá að hin íslamska trú væri „ofbeldisfull hugmyndafræði sjöttu aldar harðstjóra í dulargervi trúarleiðtoga“. Hann sagði þá að þrátt fyrir að múslimar hefðu verið fórnarlömb í hryðjuverkaárásinni í borginni Christchurch væru þeir venjulega gerendurnir og fullyrti að um allan heim dræpu múslimar fólk í stórum stíl í nafni trúar sinnar.
Ummæli Annings hafa vakið hörð viðbrögð en Scott Morrison, forsætisráðherra Ástralíu, sagði ummælin vera viðbjóðsleg.
Fréttin hefur verið uppfærð. Í spilaranum hér að neðan er hægt að horfa á myndband sem náðist af atvikinu.