Þar er búist við að framtíð hinna margumræddu 737 MAX-véla verði til umræðu og telja greinendur að fundarboðið sé til marks um að hugbúnaðaruppfærsla, sem beðið hefur verið eftir, sé handan við hornið. Icelandair, sem hefur verið með þrjár 737 MAX-þotur í rekstri, hyggst senda fulltrúa sína á fundinn.
Boeing sætti nýrri gagnrýni um helgina frá fulltrúum flugfélagsins Ethiopian Airlines, sem horfði upp á 737 MAX 8-þotu sína farast með á annað hundrað farþega innanborðs fyrir um hálfum mánuði.
Í samtali við fjölmiðla um helgina lýstu aðstandendur flugfélagsins yfir efasemdum um að Boeing hafi nokkurn tímann sagt flugmönnum frá hugbúnaðinum sem talinn er hafa valdið slysinu í Eþíópíu - rétt eins og Indónesíu hálfu ári áður. Um er að ræða eiginleika MCAS-flugstjórnarkerfisins sem er ætlað að koma í veg fyrir að flugvélar ofrísi.
Slysin leiddu til kyrrsetningar á 737 MAX-vélum um allan heim, með tilheyrandi raski á áætlunarflugi og tapi fyrir flugvélaframleiðendur. Til að mynda hafa forsvarsmenn flugfélagsins Garuda Indonesia lýst því yfir að þeir hafi afpantað 49 eintök af 737 MAX-vélum sökum vantrausts farþega.

Fundinum er lýst sem viðleitni Boeing til að ná til kaupenda 737 MAX-vélanna og stjórnvalda í ríkjum þeirra. Þar verða hinar ýmsu breytingar á hugbúnaði vélanna kynntar, auk þess sem farið verður yfir nýjar ráðleggingar Boeing til flugmanna vélanna.
Frá því að 737 MAX-vélin fórst undan ströndum Jövu í október hefur flugvélaframleiðandinn ítrekað minnt á að öll svör megi finna í handbók vélanna, eins og fram kom í máli fulltrúa Icelandair sem fréttastofa ræddi við á sínum tíma. Ætla má af þessu að einhverjar breytingar verði því gerðar á umræddri handbók.
Icelandair mætir
„Við höfum skipulagt, og munum halda áfram að skipuleggja fundi til að ræða við alla núverandi og hina mörgu fyrirhuguðu eigendur MAX-vélanna,“ segir upplýsingafulltrúi Boeing í samtali við Reuters.Ásdís Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir að íslenska flugfélagið muni senda sína fulltrúa á fund Boeing í Washingtonríki. Icelandair eigi í „samstarfi við Boeing alla daga og sitjum reglulega fundi með þeim.“
Fundurinn á miðvikudag sé liður í því samstarfi og munu því einstaklingar á vegum Icelandair sitja umræddan stöðufund um málið.
Fréttin var uppfærð og fyrirsögn breytt í samræmi við svar sem barst frá Icelandair á ellefta tímanum.