Olíuboranir á landgrunni Færeyja hófust árið 2000 og hafa alls níu holur verið boraðar, sú síðasta árið 2014, án þess að olía í vinnanlegu magni hafi fundist. Þótt leitin hafi þannig ekki skilað tilætluðum árangri hafa fylgt henni mikil umsvif og tóku Færeyingar meðal annars að sér að klassa olíuborpall eftir síðustu borun.
Síðasta olíuleitarútboð fyrir tveimur árum reyndist endasleppt og skilaði aðeins einni umsókn og lauk því ferli með því að hún var dregin til baka í fyrra. En Færeyingar hafa ekki gefið upp alla von og hafa miklir olíufundir vestur af Hjaltlandi, skammt frá lögsögumörkum Færeyja, ýtt undir bjartsýni þeirra.

Raunar komu einnig fram þau sjónarmið að minnka þyrfti enn frekar þann mun sem væri á skattheimtu Færeyja og Bretlands af olíuvinnslu. Meðan bresk stjórnvöld tækju 40 prósent í samanlögðum sköttum tækju færeysk 56 prósent.

Á færeyska vefnum Oljan.fo kemur fram að spurningum um græna og sjálfbæra orku hafi verið velt upp í umræðum í Lögþinginu. Sagt er að nokkrir þingmenn hafi lýst svipuðum sjónarmiðum og Kai Leo Johannesen, þingmaður Sambandsflokksins og fyrrum lögmaður Færeyja; að fremur en að banna olíu- og gasvinnslu ættu Færeyingar að þrýsta meira á önnur ríki að draga úr kolabrennslu, sem væri mesta ógnin gagnvart loftlagsbreytingum. Hann hafi einnig sagt að svo lengi sem stór hluti heims hefði þörf á kolvetnum til að tryggja velferð samfélaga lýsti það ábyrgð að leita að og vinna olíu.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: