Það þarf að fara meira en tvo áratugi aftur í tímann til að finna síðasta félag til að leika eftir afrek Selfyssinga frá því Hleðsluhöllinni í gærkvöldi.
Selfyssingar eru fimmta félagið sem nær að vinna sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil eftir að úrslitakeppnin var sett á laggirnar árið 1992.
Selfyssingarnir voru einmitt í lokaúrslitum það ár en töpuðu á móti FH í fjórum leikjum. Nú 27 árum síðar kom loksins Íslandsmeistaratitilinn yfir brúnna.
Af hinum fjórum nýju meisturum hafði aðeins eitt félag náð að landa honum á heimavelli sínum.
KA-menn urðu meistarar í fyrsta sinn þegar þeir unnu 24-22 sigur á Aftureldingu í KA-húsinu. Alfreð Gíslason var þá þjálfari liðsins og stórskyttan Róbert Julian Duranona allt í öllu í sókninni.
Róbert Julian Duranona skoraði 11 af 24 mörkum KA-liðsins í þessum leik en næstir komu Jakob Jónsson og Jóhann Gunnar Jóhannsson með þrjú mörk hvor.
Afturelding (1999), HK (2012) og ÍBV (2014) hafa einnig unnið sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil á síðustu áratugum en þeir unnust allir í Hafnarfirði, tveir í Kaplakrika og einn á Ásvöllum.
Félög sem hafa unnið sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil frá 1992:
KA 12. apríl 1997 í KA-húsinu (24-22 sigur á Aftureldingu)
Afturelding 25. apríl 1999 í Kaplakrika (25-23 sigur á FH)
HK 6. maí 2012 í Kaplakrika (28-26 sigur á FH)
ÍBV 15. maí 2014 á Ásvöllum (29-28 sigur á Haukum)
Selfoss 22. maí 2019 á Selfossi (35-25 sigur á Haukum)
