Samkvæmt heimildum CNN hefur fundist annar galli í stýrikerfi Boeing 737 MAX sem þvingar flugvélar til að beina nefinu niður í flugi til þess að koma í veg fyrir ofris. Sambærilegur galli varð til þess að tvær flugvélar hröpuðu með fimm mánaða millibili.
Alls létust 346 manns í slysunum sem urðu vegna búnaðarins MCAS sem settur var í vélarnar til þess að koma í veg fyrir ofris. Í kjölfarið voru vélarnar kyrrsettar um allan heim þar til prófanir hafa sýnt fram á að slíkt komi ekki fyrir aftur.
Þessar prófanir hafa leitt í ljós nýjan líkan galla sem gæti seinkað því að flugvélarnar fari aftur í loftið. Áður hafði Boeing gefið það út að þau myndu lagfæra umræddan galla í MCAS búnaðinum sem myndi takmarka völd búnaðarins.
Flugmálayfirvöld í Bandaríkjunum hafa ekki viljað staðfesta að þessi nýi galli hafi komið í ljós en hafa gefið það út að við prófun sé miðað við því að finna alla áhættuþætti. Nýlega hafi fundist „mögulegur galli“ sem Boeing ber skylda til að rannsaka nánar.
Verkfræðingar Boeing vinna nú að því að leysa þetta vandamál og mun það að öllum líkindum valda meiri töfum með tilheyrandi fjártjóni fyrir fyrirtækið og flugfélög sem notast við vélarnar.
Fundu annan galla í stýrikerfi Boeing 737 MAX

Tengdar fréttir

Icelandair segir upp flugmönnum vegna 737 MAX vélanna
Icelandair hefur slitið ráðningarsamningi við 24 flugmenn og stöðvað þjálfun 21 nýliða sem til stóð að hæfu störf sem flugmenn á Boeing 737 MAX vélar félagsins í sumar.

Fækka ferðum í sumar vegna MAX-vélanna
Flugáætlun Icelandair hefur verið uppfærð í samræmi við það.

Varað við galla í vængjum Boeing 737
Bandarísk flugmálayfirvöld ætla að skipa Boeing að fjarlægja og skipta um hluta af vængjabúnaði á þriðja hundrað farþegaþotna.