Ferðamálastofa áætlar að nokkurn tíma muni taka að fara yfir þann mikla fjölda krafna sem gerður var í tryggingafé ferðaskrifstofunnar Gaman ferða, sem lögðu upp laupana í vor. Kröfurnar voru alls 1038 talsins en kröfufrestur rann út á miðnætti fimmtudaginn 20. júní.
Gamanferðir voru í 49% eigu flugfélagsins WOW Air, sem hætti starfsemi í lok mars. Tæpum tveimur vikum síðar skilaði Þór Bæring Ólafsson, framkvæmdastjóri Gaman ferða, inn ferðaskrifstofuleyfi félagsins. Í samtali við Vísi sagði Þór að fall WOW hafi reynst meira áfall en búist var við en ferðaskrifstofan skipulagði að mestu leyti ferðir í kringum flug félagsins.
Lausafjárstaða félagsins var auk þess ekki nógu sterk til að tryggja áframhaldandi rekstur. Því hafi verið tekin ákvörðun um að hætta starfsemi til að þjónusta best hagsmunum viðskiptavina og starfsfólks.
Gaman ferðir báru lögbundnar tryggingar sem ferðaskrifstofum er skylt að hafa, sem ætlað er að grípa inn í og og endurgreiða þeim sem ekki komast í fyrirhugaðar ferðir. Það var svo í höndum Ferðamálastofu að vinna úr kröfum í tryggingaféð.
Á vef Ferðamálastofu segir að framundan sé yfirferð og vinnsla krafna en í ljósi fjöldans megi búast við að nokkurn tíma taki að fara yfir og taka afstöðu til þeirra. „Reynt verður að hraða ferlinu eins og hægt er en þó má í fyrsta lagi búast við að mál fari að skýrast með haustinu. Hafi kröfuhafi sent inn fleiri en eina kröfu, vegna sömu ferðar, verður litið svo á að seinni krafan dragi til baka fyrri kröfur.“
