Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði ökumann bifreiðar í Mosfellsbæ skömmu fyrir klukkan níu í gærkvöldi. Ökumaðurinn er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna og/eða lyfja.
Læknir kom á lögreglustöð og mat ökumanninn óhæfan til aksturs. Í bifreiðinni með ökumanni voru þrjú börn á aldrinum ellefu til tólf ára og var barnavernd kölluð til við afgreiðslu málsins.
Þá stöðvaði lögregla bifreið í Fossvogi. Ökumaðurinn sem er aðeins 17 ára er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna. Málið var afgreitt með aðkomu móður og tilkynningu til Barnaverndar.
Lögregla stöðvaði bifreið eftir hraðamælingu í Breiðholti á níunda tímanum. Mældur hraði var 72 km/klst en leyfður hámarkshraði á svæðinu er 30 km/klst. Ökumaðurinn var færður á lögreglustöð þar sem hann var síðan sviptur ökuréttindum til bráðabirgða.
Þá var önnur bifreið stöðvuð í Höfðahverfi á níunda tímanum. Ökumaðurinn er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna, vörslu fíkniefna og brot á vopnalögum. Einnig voru skráningarnúmer bifreiðarinnar fjarlægð vegna ástands hennar.
Tilkynnt var um umferðarslys um klukkan hálf níu í Höfðahverfi þar sem maður á vespu hafði ekið út af veginum og á staur. Hann hlaut áverka á höfði og var fluttur með sjúkrabifreið á slysadeild. Maðurinn er grunaður um að hafa verið undir áhrifum áfengis þegar hann stýrði vespunni.
