Viðskiptastofnun Bandaríkjanna tilkynnti um að samfélagsmiðlarisinn Facebook hefði fallist á að greiða fimm milljarða dollara sekt, jafnvirði um 611 milljarða íslenskra króna, vegna brota á persónuverndarlögum. Fyrirtækið skuldbindur sig til að endurskoða persónuvernd notenda miðilsins.
Sáttin er háð samþykki dómstóls. Stjórn Viðskiptastofnunarinnar (FTC) samþykkti sáttina eftir flokkslínum. Fulltrúar demókrata í stjórninni greiddu atkvæði gegn sáttinni þar sem þeir töldu hana ekki ganga nógu langt og sektina of lága, að sögn Reuters-fréttastofunnar.
Stofnunin taldi að skilmálar Facebook væru blekkjandi fyrir tugi milljóna notenda sem notaði andlitsgreiningartól. Þá hafi fyrirtækið brotið eigin reglur um misvísandi vinnubrögð þegar það greindi notendum ekki frá því að símanúmer sem þeir gáfu upp til öryggis yrði notað til auglýsinganota.
Facebook greiðir einnig hundrað milljón dollara sekt til Verðbréfa- og kaupþingsnefndar Bandaríkjanna (SEC) fyrir að hafa gefið fjárfestum sínum misvísandi upplýsingar um hversu alvarleg persónuverndarbrotin sem fyrirtækið var sakað um voru.
Með sáttinni þarf Facebook að stofna sjálfstæða persónuverndarnefnd þannig að Mark Zuckerberg, forstjóra Facebook, verði ekki lengur einráður um persónuverndarstefnuna. Þá ætlar fyrirtækið að hafa strangara eftirlit með snjallforritum þriðju aðila sem notendur tengjast í gegnum Facebook.
