Fyrrum heimsmeistarinn í Formúlunni, Michael Schumacher, er mættur til Parísar þar sem hann dvelur á sjúkrahúsi í borginni en Le Parisien greinir frá.
Schumacher hefur ekki sést meðal almennings síðan hann lenti í alvarlegu skíðaslysi árið 2013 en hann sást koma á Georges-Pompidou Europea sjúkrahúsið í gær.
Ekki hafa margar fréttir borist af Schumacher frá slysinu hræðilega en kona hans, Corinna Schumacher, hefur haldið spilunum þétt að fjölskyldunni.
Hann mun gangast undir aðgerð á sjúkrahúsinu hjá franska lækninum, Philippe Menasche, en hinn 69 ára gamli Philippe er talinn einn sá hæfasti í bransanum.
Talið er að aðgerðin fari fram í dag og hann muni snúa aftur til síns heima á morgun. Er Philippe var aðspurður um Schumacher neitaði hann að tjá sig og sagði að því yrði haldið leyndu.
Hinn þýski Schumacher dvelur daglega á heimili sínu í Sviss og er hægt og rólega að ná vopnum sínum. Hann fylgist svo vel með Formúlu 1 í sjónvarpinu en þessu sagði Jean Todt, forseti formúlusambandsins, frá á dögunum.