Tíu pör taka þátt og stendur eitt par eftir sem sigurvegari í lok janúar á næsta ári.
Næstu fimm daga verða öll pörin í Allir geta dansað kynnt til leiks og verður byrjað á þeim Vilborgu og Javi.
Vilborg Arna Gissuradóttir hefur farið á toppinn á hæstu fjöllum heims, farið á Suðurpólinn og er mikið hörkutól. Hún mun dansa við Javi Fernández Valiño sem sló í gegn í fyrstu seríunni. Þá var Javi með Ebbu Guðnýju Guðmundsdóttir í liði og fóru þau langt í keppninni. Javi komst alla leið í úrslitaþáttinn í maí 2018.
„Ég er enginn dansari og er lítið úti að skemmta mér út af íþróttalífinu og því fæ ég fá tækifæri til að dansa,“ sagði Vilborg í samtali við Vísi þegar stjörnurnar voru kynntar til leiks á Vísi í september.
Dómarar í ár verða þeir sömu og í fyrstu seríunni:
• Selma Björnsdóttir
• Karen Reeve
• Jóhann Gunnar Arnarson
Vilhelm Gunnarsson ljósmyndari Vísis leit við á æfingu hjá Vilborgu og Javi í World Class í vikunni og fangaði stemninguna hjá dansparinu.

