Matvælastofnun varar við neyslu á tveimur tegundum af samlokum frá vörumerkinu Dagnýju og co. í ljósi þess að merkimiðum á þeim var víxlað með þeim afleiðingum að hvorug varan er með rétta innihaldslýsingu.
Ofnæmis- og óþolsvaldar eru sömuleiðis ranglega merktir á samlokunum og er önnur þeirra ranglega merkt vegan og sögð vera án allra dýraafurða, er fram kemur í tilkynningu frá Matvælastofnun.
Fyrirtækið Álfsaga ehf sem framleiðir samlokurnar innkallar þær nú í samráði við Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis.
Tekið er fram í tilkynningunni að umræddar vörur séu skaðlausar fyrir þá sem ekki eru með ofnæmi. Þeir neytendur sem eiga umræddar vörur og eru með ofnæmi eða óþol eru beðnir um að neyta þeirra ekki og farga þeim eða skila henni þangað sem hún var keypt. Framleiðandinn veitir nánari upplýsingar.
Innköllunin á einungis við eftirfarandi lotu:
- Vöruheiti: Ranglega merkt „Veggies with avocado humus“
- Ofnæmis- og óþolsvaldar í ranglega merktri vöru: sesamfræ, sojakyrni, hafraflögur, egg, mjólkurafurðir og sinnepsduft
- Lotunúmer: L346
- Síðasti notkunardagur: 15.12.19
- Vöruheiti: Ranglega merkt „Reykjavik fitness (Veggie)“
- Ofnæmis- og óþolsvaldar í ranglega merktri vöru: hnetusmjör
- Lotunúmer: L346
- Síðasti notkunardagur: 15.12.19