Skoðun

Af af­lögu­færum fyrir­tækjum

Drífa Snædal skrifar

Misjafnt hafast fyrirtækin að þessa dagana og misjöfn er staða þeirra. Brim ákveður að greiða út 1800 milljónir í arð á sama tíma og Nettó veitir starfsfólki sínu kaupauka. Verslunarfólk eins og fleiri er undir gríðarlegu álagi og það reynist mörgum erfitt að mæta í vinnuna þessa dagana vegna sýkingarhættu. Brim er eitt þeirra fyrirtækja sem er talið þjóðhagslega mikilvægt og starfar þess vegna á undanþágu frá samkomubanninu. Starfsfólk þar leggur sig því í meiri hættu en aðrir þar sem fólk er að umgangast fleiri í vinnunni en heilbrigðisyfirvöld telja almennt skynsamlegt. Að virða það við starfsfólk væri nærtækara en huga að arðgreiðslum á þessum tímum.

Að þrýsta á um flatar lækkanir mótframlags í lífeyrissjóð eða frystingu launahækkana fyrir allan vinnumarkaðinn er með miklum ólíkindum. Sum fyrirtæki þurfa vissulega stuðning á meðan önnur eru sannanlega aflögufær. Við þurfum nú að anda rólega og vera þess fullviss að þau úrræði sem þegar hefur verið gripið til nýtist fyrirtækjum og launafólki með sanngjörnum hætti.

Á fundi sínum í dag samþykkti miðstjórn ASÍ áskorun til stjórnvalda að tryggja afkomu viðkvæmra hópa sem núverandi úrræði vegna Covid-19 grípa ekki. Þetta er fólk sem þarf að fara í sóttkví vegna undirliggjandi sjúkdóma, barnshafandi konur og fólk sem verður tekjulaust vegna samkomubannsins. ASÍ hefur áður vakið athygli stöðu þessara hópa. Nú þurfa stjórnvöld að bregðast hratt og örugglega við.

Farið vel með ykkur og góða helgi, Drífa.

Höfundur er forseti ASÍ.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×