Stefan Löfven, sem hefur verið forsætisráðherra Svía frá árinu 2014, er mjög ósáttur með sænsk knattspyrnulið og segir að þau séu ekki að hjálpa sænsku samfélagi í baráttunni gegn kórónuveirunni með því að vera spila fótboltaleiki.
Nokkur lið í efstu deild sænska boltans hafa skipulagt æfingamót í maímánuði en Svíarnir hafa verið að æfa að undanförnu. Þeir ætla að spila æfingaleiki í maí og búa sig undir það að hefja mótið í júní.
Á meðal æfingaleikja sem eru á dagskránni er slagurinn um Stokkhólm, milli Hammarby og Djurgården, en Löfven er einn þeirra sem hefur lítinn húmor fyrir þessu.
Löfven står fast vid svensk coronastrategi: Den hållerhttps://t.co/gSgEvkSppc
— Aftonbladet (@Aftonbladet) April 15, 2020
„Mér finnst þetta vera ábyrgðarlaust og ekki nauðsynlegt. Ég elska fótbolta og ég vil horfa á hann eins oft og ég get en núna er ekki tíminn til þess að spila meistaraflokksleiki,“ sagði Löfven við Aftonbladet.
„Allir sem hafa spilað á þessu stigi vita að það líður í mesta lagi ein mínúta á milli þess að maður fer í návigi og þá getur maður smitað hvorn annan en einnig meitt sig og þar með tekið pláss á spítalanum sem aðrir hafa þörf á.“
Hann bætir við að lokum að hann hafi ekki hugsað sér að grípa inn í né láta sænska knattspyrnusambandið grípa inn í. Hann segir að fótboltaheimurinn þurfi að ákveða sig sjálfur hvað hann gerir.