Aðstoða þurfti þrjá til hafnar eftir erfiðleika við að koma mótor skemmtibáts þeirra í gang. Hjálparsveit skáta í Kópavogi og Björgunarsveitin Ársæll svöruðu kalli eftir aðstoð við Löngusker sem barst klukkan korter í ellefu og eru nú á leið í land með bátinn í eftirdragi.
Þrír voru um borð í bátnum en að sögn Landhelgisgæslunnar var engin hætta sem slík á ferðum en bátsmenn hafi þurft á aðstoð að halda til að komast í höfn.
Annars vegar fór bátur frá Hjálparsveit skáta í Kópavogi og hins vegar bátur frá Björgunarsveitinni Ársæl í Reykjavík frá Seltjarnarnesi til aðstoðar mönnunum. Bátur Björgunarsveitarinnar Ársæls er nú með bátinn í eftirdrætti á leið í höfn í Kópavogi ásamt björgunarsveitarbátnum Sædísi frá Kópavogi.