Laufey er reykvísk tónlistarkona og meðlimur hljómsveitanna Kælunnar miklu og RYBA. Þar að auki er þrálátur orðrómur á kreiki um að hún sé meðlimur annars leyndardómsfulls verkefnis.
Kælan mikla á mjög góðu gengi að fagna erlendis, og leggur nú næst upp í mánaðarlangt tónleikaferðalag með frönsku hljómsveitinni Alcest í byrjun febrúar.
Goth-faðirinn sjálfur Robert Smith bauð einmitt sveitinni að spila á hátíð sem hann var listrænn stjórnandi á sumarið 2018, með persónulegu bréfi. Þær hafa síðan spilað tvisvar sinnum til viðbótar með The Cure eftir það.
Þriðja plata sveitarinnar, Nótt eftir nótt frá 2018, var nýverið valin fjórða besta plata áratugarins af vefritinu post-punk.com.
„Þetta er svona ferðalag í gegnum víddir föstudagskvölda,“ segir Laufey um listann. Lagaröðin hafi verið hárnákvæmlega valin. Mestur tími hafi farið í að raða listanum „svo að skiptingar milli stefna væru ekki rosalega skrítnar og áberandi.“
„Þótt það séu bara 45 lög þá fara þau einhvern veginn út um allt.“
