Alexander Lúkasjenkó, forseti Hvíta-Rússlands, segir að rússnesk stjórnvöld hafi gefið í skyn að þau myndu bjóða landinu betri kjör á olíu í skiptum fyrir að Hvíta-Rússland renni inn í rússneska sambandsríkið. Forsetinn heitir því að fallast aldrei á innlimun landsins.
Viðræður hafa lengi staðið yfir á milli rússneskra og hvítrússneskra stjórnvalda um nánari tengsl ríkjanna, mögulega í einhvers konar ríkjabandalagi. Lúkasjenkó sagði í dag að Rússar hafi staðið fastir á því að láta ríkin renna saman í eitt á samningafundum í síðustu viku.
„Þeir skilja samþættingu sem það að gleypa Hvíta-Rússland. Það er ekki samþætting, það er innlimun. Ég mun aldrei fallast á þetta,“ sagði Lúkasjenkó sem hét því að berjast fyrir fullveldi og sjálfstæði Hvíta-Rússlands.
Spenna hefur einkennt samskipti ríkjanna um nokkurra mánaða skeið. Rússar stöðvuðu útflutning á olíu til nágrannalandsins þegar viðræður þeirra um nánari tengsl sigldu í strand. Um 80% orkuframleiðslu Hvítrússa hefur verið háð rússneskri olíu. Lúkasjenkó hefur ítrekað sakað stjórnvöld í Kreml um að reyna að sameina ríkin.
Ekkert samkomulag náðist þegar þeir Vladímír Pútín Rússlandsforseti funduði í Sotsjí fyrir viku. Sumir sérfræðingar telja að Pútín sjá innlimun Hvíta-Rússlands sem tækifæri til að framlengja forsetatíð sína. Samkvæmt stjórnarskrá getur hann ekki boðið sig fram eftir að núverandi kjörtímabili lýkur árið 2024. Hann gæti notað innlimun Hvíta-Rússlands leið til að fara í kringum stjórnarskrána og gerast forseti nýs sameinaðs ríkis, að sögn AP-fréttastofunnar.
Lúkasjenkó segir að viðræður ríkjanna tveggja um nánara samstarf haldi áfram en aðeins um efnahagslega þætti.