Meirihluti starfsmanna Álversins í Straumsvík greiddi atkvæði með verkfallsaðgerðum en atkvæðagreiðslunni lauk um hádegi. Fyrstu verkfallsaðgerðirnar hefjast frá og með 16. október en um er að ræða aðgerðir þar sem ákveðnar starfsstéttir fara í dagleg verkföll út nóvember.
Ef ekki verður samið fyrir þann tíma hefst allsherjarverkfall þann fyrsta desember.
Reinhold Richter trúnaðarmaður starfsfólks, sagði við fréttastofu í morgun að starfsfólk sem tilheyri fimm stéttarfélögum vilji fá sambærilegar hækkanir og hafi komið fram í lífskjarasamningi. Starfsfólk fari fram á 73 þúsund króna launahækkun líkt og aðrar stéttir.
Meira verður fjallað um málið í kvöldfréttum Stöðvar 2 kl. 18:30.