Fyrirtækin voru sektuð fyrir að brjóta reglur Evrópusambandsins varðandi svokallaðar vafrakökur, með því að nota þá tækni án þess að gera notendum grein fyrir því að verið væri að fylgjast með þeim á netinu.
Sekt Google er tvöfalt hærri sekt en CNIL hafði áður beitt og var það einnig gegn Google, samkvæmt frétt Bloomberg.
Starfsmenn fyrirtækjanna hafa nú þriggja mánaða frest til að gera breytingar í samræmi við reglur. Verði það ekki búið eftir þrjá mánuði verða þau sektuð um hundrað þúsund evrur á dag, þar til breytingarnar verða gerðar.
Forsvarsmenn beggja fyrirtækjanna hafa mótmælt sektunum. Google segir niðurstaða CNIL, frönsku stofnunarinnar sem beitti sektunum, sé ekki í takt við þær breytingar sem Google hefur þegar gert. Þá gagnrýnir fyrirtækið yfirvöld í Frakklandi fyrir óskýrar reglur sem taki sífellt breytingum.
Samkvæmt frétt Reuters segja bæði fyrirtækin að yfirvöld í Frakklandi hafi ekki rétt á því að sekta fyrirtækin þar sem höfuðstöðvar þeirra í Evrópu séu í Írlandi (Google) og Lúxemborg (Amazon).
Því hafna Frakkar alfarið.
Í umfjöllun Politico segir að sektirnar séu til marks um pirring ráðamanna í Evrópu gagnvart Írlandi og Lúxemborg, þar sem flest alþjóðleg tæknifyrirtæki eru með höfuðstöðvar sínar, vegna þess hve lítið er gert þar til að hafa hemil á fyrirtækjunum.
Samkvæmt reglum ESB er það yfirvalda ríkja að leiða rannsóknir fyrirtækja sem eru starfrækt innan landamæra þeirra.