Jólamatur hækkaði í verði í flestum tilfellum og í meirihluta verslana milli 2019 og 2020 eða í fimm verslunum af átta. Iceland er eina verslunin þar sem verð lækkaði í meirihluta tilfella eða í 73 prósenta. Verð í Hagkaup lækkaði 47 prósenta tilfella en verð í Kjörbúðinni lækkaði í 42 prósenta. Minni verðmunur var á jólamat milli verslana í ár en árið 2019 og var munur á hæsta og lægsta verði í verslunum oftar minni í ár en í fyrra.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá ASÍ en þar segir að miklar verðhækkanir megi greina í mörgum vöruflokkum milli ára.
„Í sumum verslunum má þó einnig sjá verðlækkanir milli ára. Verð á grænmeti og ávöxtum hækkar mest í verði milli ára en töluverðar verðhækkanir má sjá í fleiri matvöruflokkum eins og kornvöru, mjólkurvöru og drykkjarvöru.“
Grænmeti og ávextir rjúka upp í verði
Í tilkynningunni segir að grænmeti og ávextir hafi í flestum tilfellum hækkað í verði milli ára og þá í flestum verslunum.
„Í mörgum tilfellum er um að ræða mjög miklar verðhækkanir sem nema tugum prósenta. Verð á grænmeti og ávöxtum lækkaði eða stóð í stað í flestum tilfellum í Iceland og Hagkaup en verð lækkaði einnig eða stóð í stað í þónokkrum tilvikum í Fjarðarkaup og Heimkaup.“
Þá segir jafnframt að mjólkurvörur hafi í flestum tilfellum hækkað í verði í verslunum; verð á lítra af nýmjólk frá MS hækkaði til að mynda um um 5-8 prósent í öllum verslunum nema í Iceland þar sem það lækkaði um 1 prósent.

„Verð á MS Dala feta í kryddolíu hækkaði um 2-11% nema í Kjörbúðinni þar sem hann lækkaði um 7%. Þá hækkaði verð á Toppi sprauturjóma mikið eða um 5-33%. Mjólkurvörur lækkuðu oftast í verði í Iceland og í Kjörbúðinni milli ára.
Verð á kornvöru; brauði, kexi, smákökum og morgunkorni hækkaði í verði í flestum verslunum og mátti oft sjá miklar verðhækkanir í þessum vöruflokki eða frá 4% upp í 20% og stundum 30%. Verð í þessum vöruflokki lækkaði oftast í Iceland, Kjörbúðinni og Hagkaup.“
Kjöt hækkað og lækkað í verði
Sé litið til verðs á kjötvöru þá hefur það bæði hækkað og lækkað. SS hamborgarhryggur, með beini og úrbeinaður, lækkaði í verði í öllum þeim verslunum sem vörurnar fengust í.
„Verð á kjöti lækkaði í 6 tilfellum af 7 í Heimkaup, 4 tilfellum af 7 í Iceland og 8 tilfellum af 12 í Hagkaup auk þess sem verð stóð í stað í einu tilviki. Þá lækkaði verð á kjöti eða stóð í stað í 6 tilfellum af 10 í Bónus, 3 tilfellum af 7 í Krónunni, 3 tilfellum af 6 í Krónunni og í 4 tilfellum af 13 í Fjarðarkaupum.“

Í mörgum tilfellum hækkaði verð á á konfekti, sælgæti og snakki og voru verðhækkanir á bilinu 3-16%. Íslenskt konfekt lækkaði frekar í verði en erlent og lækkaði verð á konfekti, nammi og snakki oftast í Iceland, Kjörbúðinni, Nettó og Hagkaup.
Þá voru töluverðar verðlækkanir á drykkjarvöru í sumum verslunum en verðhækkanir í öðrum. Verð á drykkjarvöru lækkaði oftast og mest í Iceland. Verð á drykkjarvörur lækkaði einnig eða stóð í stað í öllum tilfellum í Hagkaup og í meirihluta tilfella í Kjörbúðinni eða í 6 tilfellum af 10. Töluverðar verðhækkanir voru þó á drykkjarvöru í öðrum verslunum.
Minni verðmunur á jólamat milli verslana 2020 en 2019
Minni verðmunur var á jólamat milli verslana í ár en árið 2019. Árið 2019 var munur á hæsta og lægsta verði yfir 20% í 80% tilfella en til samanburðar var munur á hæsta og lægsta verði þetta árið yfir 20% í 53% tilfella. Þá var munur á hæsta og lægsta verði yfir 40% í 41% tilfella árið 2019 en í 26% tilfella í ár.
Verðkönnun á jólamat 2020 má sjá hér.
Verðkönnun á jólamat 2019 má sjá hér.
Um úttektina
Um þær verðbreytingar sem hér eru tíundaðar skal segja að þær miða við breytingar á verði verslana milli verðkannana verðlagseftirlits ASÍ frá 17. desember 2019 og 15. desember 2020. Mæld eru þau verð sem eru í gildi á hverjum tíma í versluninni og geta tilboðsverð haft áhrif á verðbreytingar einstakra vara. Könnunin var gerð á sama tíma í eftirtöldum verslunum: Nettó, Bónus, Krónunni, Fjarðarkaupum, Iceland, Hagkaup, Kjörbúðinni og á Heimkaup.is.
Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.