Jón Magnús hóf störf á Landspítalanum fyrir 25 árum síðan og hefur hann í 24 af þeim árum unnið á bráðamóttökunni. Jón mun hefja störf hjá Heilsuvernd eftir mánuð og segir hann mörg spennandi verkefni bíða sín þar. Þetta kom fram í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins.
Jón Magnús segir ástandið á bráðamóttökunni ekki boðlegt. Hann hafi lengi beitt sér fyrir skipulagsbreytingum í von um að draga úr álagi á bráðamóttöku en það hafi ekki borið árangur.
„Því miður hefur ekki gengið nægilega vel að breyta skipulagi innan spítalans sem kemur í veg fyrir að þetta vandamál komi upp aftur,“ sagði Jón Magnús í samtali við RÚV.
„Þetta ástand er náttúrulega óásættanlegt. Það er óásættanlegt fyrir þá sem þurfa að leita til okkar hvort sem það eru einstaklingar sem þurfa að leggjast inn eða ekki,“ sagði Jón.