Áfram verður almennt miðað við tuttugu manna samkomubann, tveggja metra regluna og grímuskyldu. Þrátt fyrir góðan árangur í baráttunni gegn kórónuveirunni innanlands hafa sóttvarnayfirvöld sagst vilja stíga varfærin skref í átt að opnun í ljósi nýrra afbrigða veirunnar og mikillar útbreiðslu hennar í löndunum í kringum okkur.
Aron Elí Gíslason, einn eigenda Götubarsins á Akureyri, er hæstánægður með að geta opnað að nýju eftir margra mánaða lokun. Staðurinn verður opnaður fyrir gestum næsta fimmtudag klukkan fimm.
„Eftir fjóra erfiða mánuði þar sem við þurftum að hafa lokað, þá erum við hrikalega ánægð að geta opnað og höldum að fram undan séu bjartir tímar. Vonandi var þetta síðasta lokunin hjá okkur í bili. Það verður bara hrikalega gott að fá fólk í húsið og að starfsfólkið geti fengið að vinna aftur. Við erum mjög jákvæð gagnvart framhaldinu.“
Aron er sannfærður um að gestum götubarsins líði eins. Staðurinn verður opnaður á ný næsta fimmtudag klukkan 17.00.
„Ég hugsa að margir gestir hafi saknað þess að geta farið á Götubarinn og fengið sér smá vín. Ég hugsa að það verði ágætt að gera hjá okkur og að þeir sem elski Götubarinn láti sjá sig.“
Það kæmi Aroni hreint ekki á óvart þótt einhver muni taka lagið á fimmtudaginn enda er staðurinn landsþekktur fyrir að vera hálfgerður tónlistarbar þar sem gestir geta látið ljós sitt skína á flyglinum.
„Við erum með tvo flygla hérna og oftar en ekki er nú einhver sem heldur uppi stemningunni þannig að ég held að það verði engin breyting á því núna um helgina.“
Þrátt fyrir að ráðist hafi verið í varfærnar tilslakanir þarf eftir sem áður að gæta vel að sóttvörnum. Aron segir að hugsað hafi verið fyrir öllu og að starfsfólk verði tilbúið í að taka á móti gestum á fimmtudag.
„Við búum svo vel að geta skipt staðnum alveg upp í tvö hólf og við ætlum að nýta það og passa að allir starfsmenn verði með grímur og við munum þjóna til borðs og passa upp á að það verði einungis tuttugu manns á staðnum með starfsfólki. Við fylgjum öllum reglum og þrífum alla snertifleti vel.“