Derek Chauvin, fyrrverandi lögreglumaður í Minneapolis, er ákærður fyrir að hafa valdið dauða Floyd, óvopnaðs blökkumanns, í maí í fyrra. Myndband náðist af viðskiptum Chauvin og Floyd sýndi að lögreglumaðurinn hélt hné sínu á hálsi Floyd í um níu mínútur þrátt fyrir að Floyd grátbæði hann um að sleppa takinu. Þrír aðrir lögreglumenn eru ákærðir fyrir aðild að manndrápi en réttað verður yfir þeim síðar á þessu ári.
Saksóknarar óskuðu eftir því að ákæra Chauvin einnig fyrir manndráp án ásetnings og er nú beðið niðurstöðu áfrýjunardómstóls um hvort þeir fá að gera það. AP-fréttastofan segir að réttarhöldin gætu tafist í fleiri vikur eða mánuði á meðan fjallað er um kröfuna.
Dómarinn í málinu í Hennepin-sýslu ákvað að byrjað yrði að velja kviðdómendur í dag þrátt fyrir að hann gæti þurft að gera hlé á réttarhöldunum bráðlega. Upphaflega átti valið að hefjast í gær.
Dráp lögreglumannanna á Floyd varð kveikjan að mikilli mótmælaöldu gegn lögregluofbeldi og kerfislægri kynþáttahyggju, ekki aðeins í Bandaríkjunum heldur víða um heim, í fyrra. Chauvin er sagður ætla að neita sök í málinu. Málsvörn hans byggist á því að hann hafi ekki valdið dauða Floyd heldur hafi heilsubrestur og ofskammtur af lyfjum orðið honum að aldurtila.