Grískur áfrýjunardómstóll komst að þeirri niðurstöðu að nýnasistahreyfingin Gullin dögun væru skipulögð glæpasamtök og sakfelldi sjö leiðtoga hennar. Flokkurinn hefur verið einn sá stærsti á gríska þinginu undanfarin ár en hann náði fyrst vinsældum í kjölfar efnahagskreppunnar 2008.
Lagos var kosinn á Evrópuþingið fyrir hönd Gullinnar dögunar árið 2019 en sveik lit aðeins nokkrum vikum síðar og hefur setið á þinginu sem óháður þingmaður. Hann var ekki handtekinn í haust þar sem hann naut friðhelgi sem Evrópuþingmaður. Þeirri friðhelgi ákvað yfirgnæfandi meirihluti Evrópuþingmanna svipta hann í dag.
Í kjölfarið var Lagos handtekinn í Belgíu. Breska ríkisútvarpið BBC segir ekki ljóst hvort að hann ætli sér að berjast gegn því að vera framseldur til Grikklands. Hann var allt annað en sáttur við handtökuna á Twitter.
„Þjófarnir, guðleysingjarnir, andgrikkirnir eru að fara með mig í fangelsi,“ tísti Lagos.
Sakamálarannsókn hófst á Gullinni dögun þegar stuðningsmaður flokksins myrti Pavlos Fyssas, hiphop-tónlistarmann og andfasískan aðgerðasinna í Keratsini, vestur af Aþenu árið 2013. Lagos var þingmaður á gríska þinginu og foringi í Gullinni dögun í Píraeus, nærri þeim slóðum sem Fyssas var myrtur.