Henrik L. Hansen, landlæknir á Grænlandi, greindi frá þessu á upplýsingafundi í hádeginu. Áætlað er að um tvö hundruð manns verði boðaðir í sýnatöku vegna hinna nýju smita.
Tveir þeirra sem hafa nú greinst með kórónuveirusmit eru starfsmenn á vegum verktakafyrirtæksins Munck sem vinnur nú að framkvæmdum á flugvellinum í Nuuk. Nokkur fjöldi starfsmanna fyrirtækisins hefur greinst með veiruna síðustu vikurnar þó að smitin nú séu þau fyrstu í nokkurn tíma.
Þrír af þeim fimm sem hafa nú greinst eru hins vegar ekki starfsmenn Munck. Þeir hafa þó verið í samskiptum við smitaða starfsmenn verktakafyrirtækisins, en í frétt KNR segir að fólkið hafi smitast í kaffiboði eða fermingarveislu fyrir fjórum dögum. Einn þeirra sem greinst hafði ferðast til Ilulissat frá höfuðborginni.
Mánuður er síðan ákveðið var að loka á allt flug frá Nuuk vegna kórónuveirusmita. Stóð lokunin í nokkra daga, en þá var öllum veitingastöðum einnig gert að loka.
Alls hafa nú 46 manns greinst með kórónuveiruna á Grænlandi frá upphafi faraldursins.