Frá þessu segir söngkonan í færslu á Instagram, en Spears mætti fyrir dómara á miðvikudag og krafðist þess endurheimta sjálfræði sitt.
Faðir hennar, Jamie Spears, hefur haft forræði yfir fjárhag og einkalífi söngkonunnar í einhver þrettán ár, eða frá því að hún var nauðungarvistuð á geðdeild árið 2008 eftir að hafa fengið taugaáfall.
Söngkonan segir að fyrirkomulagið feli meðal annars í sér að hún verði að notast við getnaðarvarnir og komi í veg fyrir að hún geti gifst kærasta sínum.
Í færslunni segir Spears að hún hafi ekki rætt málið áður vegna „stolts“. „Ég er að vekja athygli fólks á þessu þar sem ég vil ekki að það haldi að líf mitt sé fullkomið þar sem svo er alls ekki, og ef þið hafið lesið eitthvað um mig í fréttum í vikunni, þá vitið þið virkilega að það er það alls ekki.“
Hún bað aðdáendur sína sömuleiðis afsökunar fyrir að hafa falið sannleikann fyrir þeim. „Ég gerði það vegna stolts míns og ég skammaðist mín fyrir hvað kom fyrir mig,“ sagði Spears.
Söngkonan sagði í 23 mínútna ræðu sinni fyrir dómara á miðvikudag, að hún hafi verið í afneitun í öll þessu ár. „Ég hef verið í losti. Ég er í áfalli. […] Ég vil bara líf mitt aftur.“
Jamie Spears, faðir hennar, svaraði því svo til að hann hafi ávallt haft hagsmuni hennar að leiðarljósi.