Handritið skrifuðu Höskuldur Þór og Berglind Alda Ástþórsdóttir. Höskuldur fékk hugmyndina að verkefninu á tónleikum Friðriki Dór sem fóru fram í Eldborgarsal í Hörpu árið 2017.
„Þá fékk ég þessa flugu í hausinn en svo var hún lengi vel að malla í hausnum og svo var þetta í mínum huga í raun bara hver yrði fyrstur til að grípa þetta,“ sagði Höskuldur í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær.

Með aðalhlutverk í sýningunni fara þau Ingi Þór Þórhallsson, Jón Svavar Jósefsson, Kolbeinn Sveinsson, Berglind Alda Ástþórsdóttir, Helgi Valur Gunnarsson, Agla Bríet Bárudóttir og Kristinn Óli Haraldsson, sem er best þekktur sem tónlistarmaðurinn Króli en hann á augljóslega framtíðina fyrir sér í leiklistinni líka og hefur sýnt það í sýnum verkefnum.


Um er að ræða ótrúlega fyndna, skemmtilega og hugljúfa sýningu frá hæfileikaríku ungu fólki. Heppnast ótrúlega vel að tvinna tónlist Friðriks Dórs við söguna, þannig að textarnir tjá tilfinningar leikaranna hvort sem það er ást, angist, losti eða bara eitthvað allt annað.


Leikararnir áttu öll sín eigin stóru augnablik í sýningunni þar sem þau fluttu lög Friðriks Dórs. Það var líka ótrúlega skemmtilegt að heyra inn á milli öðruvísi útsetningar og að fá að hlusta á þekkt lag söngvarans sungið sem fallegan dúett, sem dæmi sé tekið. Um útsetningu tónlistar sá Snorri Beck Magnússon.



Friðrik Dór á einstaklega mikið af góðum textum og er þetta mjög vel heppnað verkefni að mati blaðamanns. Stemningin í salnum í gær var mögnuð og voru augljóslega nánustu aðstandendur leikara, leikstjóra, framleiðanda og annara sem komu að sýningunni úti í sal.



Friðrik Dór mætti auðvitað á frumsýninguna ásamt fjölskyldu sinni og var hann klappaður upp á svið í lok sýningar. Hópurinn á bak við Hlið við hlið færðu honum þar blómvönd, en í Kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær, sagði Friðrik Dór að hann hafi strax sagt já þegar Höskuldur bar upp þessa hugmynd við hann.
„Auðvitað er þetta það, mér finnst það. Mér finnst það að einhver skuli vilja gera eitthvað með verkin þín, það er heiður þannig að já. Mér finnst þetta mikill heiður og mjög gaman.“


Hlið við hlið fjallar um borgarstrákinn Dag sem fær sumarvinnu á sveitahóteli þar sem allt er eins og það hefur verið í áraraðir. En koma hans virðist þrýsta á tengslin innan hótelsins að þolmörkum - skyndilega er sem öll fjölskyldutengsl, sambönd og vináttur hanga á bláþræði.


Sýningin Hlið við hlið er annað verkefni sjálfstæðs sviðslistahóps sem setti upp sýninguna Ðe Lónlí Blú Bojs árið 2019 í Bæjarbíói í Hafnarfirði, en hún fékk mikið lof og seldust um 20 sýningar upp. Það kæmi ekki á óvart ef þessi sýning myndi vekja jafn mikla lukku miðað við viðbrögðin í salnum í gær.


