„Það er langþráður draumur að leika Evu appelsínu í ávaxtakörfunni og ég er hrikalega spennt, segir söngkonan Jóhanna Guðrún Jónsdóttir. Á meðal þeirra sem hafa farið með hlutverk appelsínunnar í Ávaxtakörfunni eru Selma Björnsdóttir og Ágústa Eva Erlendsdóttir.
„Í verkinu er tekist á við fordóma, einelti og mismunun á einlægum nótum þar sem börn og foreldrar fá að fylgjast með lífinu í ávaxtakörfunni með leik, söng, sirkus og dansi. Sagan segir frá samskiptum íbúa Ávaxtakörfunnar þar sem gengur á ýmsu til að ná sátt og samlyndum því sumir eru jú ber og aðrir eru grænmeti,“ segir í tilkynningu um sýninguna.
Höfundur handrits er Kristla M. Sigurðardóttir og höfundur tónlistar er Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson. Leikarar sýningarinnar eru Jóhanna Guðrún Jónsdóttir, Eyþór Ingi Gunnlaugsson, María Ólafsdóttir, Karl Ágúst Úlfsson, Jón Svavar, Viktoría Sigurðardóttir, Katla Njálsdóttir, Eyrún Ævarsdóttir og Jóakim Meyvant Kvaran.

„Mér finnst frábært að nýtt fólk sé að setja Ávaxtakörfuna á svið en ekki ég og listrænir stjórnendur sem ég vinn venjulega með. Ég hef venjulega verið framleiðandi líka en er það ekki núna og er mjög spennt að sjá útkomuna,“ segir Kristlaug um uppsetninguna.
Leikstjóri sýningarinnar er Gói Karlsson og aðstoðarleikstjóri er Auður Bergdís. Höfundur tónlistar og tónlistarstjóri er Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson. Danshöfundur sýningarinnar er Chantelle Carey.
„Í vinnu minni með ungum dönsurum og listamönnum hef ég veitt því athygli hve miklar mætur þau hafa öll á ávaxtakörfunni þannig að ég er ótrúlega spennt fyrir að taka þátt í þessari uppfærslu með frábæru hæfileikafólki,“ segir Chantelle um verkefnið.
Leikmynda- og búningahönnuðir eru Eva Signý Berger og Alexía Rós Gylfadóttir og leikmyndasmiður er Svanhvít Thea Árnadóttir. Ljósahönnuður sýningar er Freyr Vilhjálmsson og um leikgervi sér Margrét R Jónasar. Framleiðandi uppsetningarinnar er Þorsteinn Stephensen.